Greinargerð til Málræktarsjóðs, BTÍ

22. maí 2018

Íðorðasafn í brunatækni

Greinargerð til Málræktarsjóðs

Verkefni þetta var unnið af Ásdísi Ólafsdóttur, meistaranema í þýðingarfræði við Háskóla Íslands, í samvinnu við Orðanefnd Brunatæknifélags Íslands (BTÍ) og Orðanefnd byggingar­verkfræðinga (OBVFÍ) með styrk frá Málræktarsjóði og snerist um að þýða skilgreiningar á íðorðum á sviði brunatækni. Umsjón með verkefninu höfðu Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Þorsteinn Þorsteinsson, formaður OBVFÍ. Í heildina eru í orðasafninu 168 íðorð á íslensku og ensku, sem og skilgreiningar þeirra á ensku. Verkefnið fólst því í því að þýða þessar skilgreiningar á íslensku. Verkefnið var unnið í forritinu Excel. Vinna hófst í ágúst 2017 og var lokið að mestu í febrúar 2018.

Við þýðingu skilgreininganna kom m.a. efni úr námskeiði Ágústu Þorbergsdóttur vorið 2016, Íðorðafræði í Háskóla Ísland að góðum notum. Á glærum úr námskeiðinu má finna reglur um hvernig réttar skilgreiningar eiga að vera. Sem dæmi má nefna að engir punktar eru í skilgreiningum, þær byrja á litlum staf og ekki skal endurtaka hugtakið sjálft. Engar óþarfa upplýsingar eru til staðar, einungis hnitmiðuð skilgreining. Þetta var haft að leiðarljósi. Þó voru athugasemdir hafðar með í þessu orðasafni. Þau gögn sem ég fékk í hendurnar þurfti aðeins að breyta. Í byrjun orða og skilgreininga var stórum staf í breytt lítinn og punktar í lok skilgreininga voru fjarlægði. Þó er enn eitthvað um endurtekningar á íðorðum, og mögulega mætti gera á þeim meiri breytingar. Ekki var hróflað mikið við þýðingu íðorðanna sjálfra. Í orðasafninu eru ýmist nafnorð, sagnorð eða lýsingarorð. Einstaka orði þurfti að breyta. Þar má nefna sagnorðið ,,að kola” þar sem áður stóð nafnorðið ,,kolun” þrátt fyrir að skilgreiningin ætti við sagnorð. Í heildina gekk verkefnið vel, þótt ekki mikið væri um heimildir á íslensku til þess að fara eftir. Hugtakasafn Utanríkisráðuneytisins hafði ekki mörg þessara orða. Helstu vandræðin sem upp komu voru tilvik þar sem eðlis- eða efnafræðiþekkingar var krafist, þá þarf að velja réttu orðin, t.d. reaction sem þýðir ekki ,,viðbrögð” hér heldur ,,efnahvörf”. Með hjálp ýmissa vefsíðna gekk ágætlega að finna réttu íðorðin.

Ætlunin er að þetta orðasafn verði hluti af Orðabanka Íslenskrar málstöðvar, sem verið er að uppfæra þegar þessi orð eru rituð. Framsetning orðasafnsins í töfluformi er þannig að auðvelt verði að færa það inn í endurgerðan orðabanka. Orðasafnið er fjarri því að vera tæmandi og er nauðsynlegt að halda áfram að þýða brunatæknileg íðorð á íslensku og hafa þar til hliðsjónar tilskipanir og staðla Evrópusambandsins í þessum efnum. Á það við um fleiri svið byggingar­verkfræði og byggingartækni.

Helstu heimildir:

Hugtakasafn Þýðingamiðstöðvar Utanríkisráðuneytisins. Slóð:

 http://www.hugtakasafn.utn.stjr.is/

Íðorðasafn byggingarverkfræði. Viðauki meistararitgerðarinnar Yfir Íðorðaheiði. Ragnheiður M. Kristjónsdóttir. Slóð:  https://skemman.is/bitstream/1946/17649/2/%C3%8D%C3%B0or%C3%B0asafn%20byggingarverkfr%C3%A6%C3%B0i%20pdf.pdf

Orðabanki Íslenskrar málstöðvar. (aðallega sjómennsku- og vélfræðiorðasafn). Slóð:  http://www.ordabanki.hi.is/wordbank/dictionaries

Raftækni- og ljósorðasafn (2. bindi). Menningarsjóður, Reykjavík 1973.

Slökkvistörf í skipum [ritstjóri Barbara Adams]; íslensk þýðing og staðfærsla Guðlaugur Jón Árnason, Stefán Einarsson, Helgi Ívarsson. Kópavogur: Siglingastofnun Íslands, 2011

Snara.is (ensk-íslensk orðabók). Slóð:  https://snara.is/