Greinargerð frá íðorðanefnd í lýðheilsufræðum

Til þess er málið varðar,

Í janúar árið 2017 leitaði Félag lýðheilsufræðinga til nokkurra fagaðila með hugmynd um að stofna orðanefnd til þess að vinna orðabanka í lýðheilsufræðum. Þessir fagaðilar tóku vel í hugmyndina og ýmist bentu á aðila sem vel ættu heima í slíkri orðanefnd eða samþykktu að setjast í nefndina.

Markmið verkefnisins er að koma á fót opnu rafrænu safni lykilhugtaka lýðheilsufræðanna á íslensku og ensku, sem og skilgreiningum á þeim. Tilgangurinn er að auka líkur á samræmdri orðanotkun í faginu til að koma í veg fyrir að hugtakanotkun í almennri og faglegri umræðu verði á reiki.

Markmiðið er í samræmi við Málstefnu Háskóla Íslands þar sem kennarar eru „...hvattir til að sinna íðorðasmíð í fræðigrein sinni og miðla íðorðum til stúdenta og almennings“ (Málstefna Háskóla Íslands, 12. grein, 2016).

Starf orðanefndarinnar felst m.a. í að safna og skilgreina lykilhugtök, ræða þýðingar, flokka hugtök og ræða tengsl við erlenda orðabanka og erlend fagorðasöfn, auk þeirra íslensku íðorðasafna sem tengjast lýðheilsufræðum. Að sinni er ekki gert ráð fyrir tæmandi íðorðasafni heldur verður verkefnið sem sótt er um styrk til fyrst um sinn afmarkað við að þróa skilgreiningar á nokkrum fjölda lykilhugtaka og verður áhersla lögð á að skýra hvaða hugtök ákveðin orð í fræðunum standa fyrir.

Þegar ljóst var að það tækist að stofna nefnd sótti Félag lýðheilsufræðinga um styrk í Málræktarsjóð til þess að geta hafið vinnu við þýðingar á orðalista. Sá styrkur fékkst í mars árið 2017 og var þá hafist handa.

Orðanefndin hefur hist reglulega á síðustu tveimur árum. Á árinu 2017 var nýttur listi til þýðingar sem gefinn var út af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) árið 1998: Health promotion glossary. Þeirri úrvinnslu var skilað með því að opna íðorðasafn lýðheilsufræða þann 12. október 2018 á Menntakviku ráðstefnu um menntamál. Ágústa Þorbergsdóttir kynnti opnun safnsins. Þá þegar hafði orðanefnd skoðað orðabanka sem hægt væri að þýða til að bæta við íðorðasafnið og fyrir valinu varð Oxford Reference orðasafn í lýðheilsufræðum. Nú þegar hefur verið unnið með söfnun 176 orða og skilgreininga úr því orðasafni og við tekur vinna við að þýða næstu 50 orð til að bæta við útgáfu. Þar sem við unnum með 50 orð á síðasta ári sem var hæfilega mikið þá stefnum við að sama fjölda til að vinna með. Ætlunin er að opna næsta hluta á næstu Menntakviku í október 2019. Sama ferli verður nýtt við viðbætur við orðabankann enda hefur aðferðafræðin sem nýtt var á árunum 2017 við undirbúning og 2018 við ferlið og opnun orðabankans vel.

Starf orðanefndarinnar byggir á Leiðbeiningum við íðorðastarf sem Íslensk málnefnd gaf út árið 2004 en þar eru settar fram hagnýtar ráðleggingar um skipulagningu vinnunnar, skráningu og röðun upplýsinga, skilgreiningu hugtaka, framsetningu o.fl.

Í nefndinni sitja í dag:

Félag lýðheilsufræðinga: Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir
Menntavísindasvið HÍ: Jakob Frímann Þorsteinsson
Embætti landlæknis: Dóra Guðrún Guðmundsdóttir og Jenný Ingudóttir
Árnastofnun: Ágústa Þorbergsdóttir
Félagsvísindasviði HÍ: Stefán Hrafn Jónsson
Heilbrigðisvísindasviði HÍ: Laufey Steingrímsdóttir
Félag faralds- og líftölfræðinga: Laufey Tryggvadóttir

Orðasafnið mun styðja við faglegt starf, kennslu, þróunarstarf og rannsóknir á sviði lýðheilsufræða, auk áframhaldandi vinnu við íðorðasafn í lýðheilsufræðum. Skilgreiningar og þýðingar verða færðar inn í rafrænan orðabanka Íslenskrar málstöðvar. Við munum halda áfram þessari vinnu á meðan við fáum styrki til þessa og næst munum við skoða erlenda orðabanka eins og Rikstermbanken í Svíþjóð og Termportalen í Noregi eða aðra sem teljast til verulegra bóta fyrir orðasafnið.

Fyrir hönd orðanefndar,
Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, formaður Félags lýðheilsufræðinga