Skipulagsskrá Málræktarsjóðs

Nafn

1. gr.
Með skipulagsskrá þessari er stofnaður sjóður sem ber heitið Málræktarsjóður.

2. gr.
Málræktarsjóður hefur sérstakan fjárhag og er sjálfstæður skattaðili með heimilisfang og varnarþing í Reykjavík.

Stofnendur og stofnfé

3. gr.
Íslensk málnefnd er stofnandi Málræktarsjóðs. Einstaklingar, samtök, fyrirtæki eða stofnanir, sem lögðu honum til fjármuni í einhverri mynd fyrir árslok 1992, teljast einnig stofnendur.

4. gr.
Stofnfé Málræktarsjóðs telst 150 milljónir króna á verðlagi í júní 2011.

Markmið

5. gr.
Meginmarkmið Málræktarsjóðs er að beita sér fyrir og styðja hvers konar starfsemi til eflingar íslenskri tungu og varðveislu hennar samkvæmt nánari ákvæðum þessarar skipulagsskrár.

6. gr.
Markmiðum sínum hyggst Málræktarsjóður einkum ná með því að sinna þessum verkefnum:
a) að styrkja fjárhagslega nýyrða- og íðorðastarf í landinu,
b) að styrkja fjárhagslega starf orðanefnda sem vinna að þýðingum á tæknimáli eða sérhæfðu máli,
c) að styrkja fjárhagslega útgáfu handbóka og leiðbeininga um málnotkun,
d) að styrkja fjárhagslega útgáfu kennsluefnis í íslensku,
e) að styrkja fjárhagslega útgáfu orðabóka,
f) að veita einstaklingum, samtökum og stofnunum viðurkenningu fyrir málvöndun og málrækt,
g) að styrkja með fjárframlögum hvers konar framtak sem verða má til þess að markmiðum Málræktarsjóðs verði náð.

Tekjur og gjöld

7. gr.
Tekjur Málræktarsjóðs eru sem hér segir:
a) Ávöxtunartekjur stofnfjár.
b) Fjárframlög og gjafir eftir 1992, önnur en framlög íslenska ríkisins samkv. 2. mgr. 4. gr.
c) Aðrar tekjur.

8. gr.
Gjöld Málræktarsjóðs eru sem hér segir:
a) Útgjöld og kostnaður við að sinna verkefnum sjóðsins samkvæmt 5. og 6. grein hér á undan.
b) Almennur rekstrarkostnaður sjóðsins.
c) Önnur útgjöld.

9. gr.
Gæta skal hagsýni í hvívetna við meðferð eigna og fjármuna Málræktarsjóðs. Fé sjóðsins skal ætíð ávaxtað með tryggum og arðbærum hætti.

10. gr.
Höfuðstóll Málræktarsjóðs er stofnfé hans með síðari viðbótum samkvæmt ákvörðun stjórnar, verðbættur í lok hvers reikningsárs. Þennan höfuðstól má ekki skerða. Til útgjalda samkvæmt 8. grein skal einungis nota tekjur sjóðsins, samkvæmt 7. grein hér á undan, en heimilt er stjórn Málræktarsjóðs að legggja árlega allt að fjórðungi teknanna við höfuðstólinn. Rétt er stjórn sjóðsins að setja sér reglur um úthlutun fjár til verkefna sjóðsins og um veitingu viðurkenninga, og séu þær reglur kynntar almenningi.

Fulltrúaráð

11. gr.
Stofna skal fulltrúaráð Málræktarsjóðs. Í fulltrúaráði eiga sæti: a) þeir menn sem sæti eiga í Íslenskri málnefnd samkvæmt 6. grein laga nr. 2/1990, b) fulltrúar samtaka, fyrirtækja eða stofnana sem teljast stofnendur Málræktarsjóðs samkvæmt 3. grein hér á undan. Hver stofnandi á einn mann í fulltrúaráði nema Íslensk málnefnd, sbr. a-lið.

12. gr.
Fulltrúaráði er fengið það hlutverk með skipulagsskrá þessari að stjórna Málræktarsjóði með sjóðstjórn samkvæmt þeim reglum um verkaskiptingu sem felast í skipulagsskránni. Meginhlutverk fulltrúaráðs er að tilnefna tvo menn í stjórn Málræktarsjóðs og tvo til vara og álykta í meginatriðum um stefnu og starfshætti Málræktarsjóðs til leiðsagnar fyrir sjóðstjórn.

13. gr.
Formaður og varaformaður Íslenskrar málnefndar eru formaður og varaformaður fulltrúaráðs.

14. gr.
Fulltrúaráð skal koma saman a.m.k. einu sinni á ári, í júnímánuði, og nefnist sá fundur aðalfundur Málræktarsjóðs. Aukafundi má halda ef ástæða er til. Á fulltrúaráðsfundum gilda almenn fundarsköp, og ræður einfaldur meiri hluti úrslitum allra mála. Halda skal gerðabók.

15. gr.
Viðfangsefni aðalfundar og dagskrá hans skal vera sem hér segir:
a) Lögð er fram skýrsla sjóðstjórnar um starfsemi Málræktarsjóðs fyrir liðið starfsár.
b) Afgreiddir eru endurskoðaðir ársreikningar Málræktarsjóðs fyrir liðið starfsár.
c) Tilnefndir eru tveir menn í sjóðstjórn og tveir til vara samkvæmt 12. grein hér á undan.
d) Skipaður er löggiltur endurskoðandi fyrir næsta reikningsár.
e) Gerðar eru almennar leiðbeinandi ályktanir um starfsemi Málræktarsjóðs.
f) Önnur mál.

16. gr.
Fari svo, af einhverjum ástæðum, að fulltrúaráð tilnefni ekki menn í sjóðstjórn má menntamálaráðherra skipa í stjórnina í samræmi við ákvæði 12. greinar hér á undan.

Stjórn

17. gr.
Í stjórn Málræktarsjóðs eiga sæti fimm menn og tveir til vara. Stjórn Íslenskrar málnefndar tilnefnir þrjá sjóðstjórnarmenn úr sínum hópi. Tveir stjórnarmenn og tveir varamenn eru tilnefndir af fulltrúaráði Málræktarsjóðs (sbr. 12. grein). Stjórn Íslenskrar málnefndar ákveður hver skuli vera formaður sjóðstjórnar.

18. gr.
Stjórnin er skipuð til fjögurra ára í senn.

19. gr.
Sjóðstjórn heldur fundi þegar þurfa þykir, eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Afl atkvæða ræður úrslitum allra mála. Rita skal fundargerðir stjórnarfunda.

20. gr.
Sjóðstjórn stýrir daglegum rekstri Málræktarsjóðs og ræður öllum málefnum hans til lykta með þeim takmörkunum sem greindar eru í skipulagsskrá þessari. Sjóðstjórn ber ábyrgð á því að meginmarkmiðum Málræktarsjóðs, eins og þeim er lýst í 5. og 6. grein hér á undan, verði náð að svo miklu leyti sem kostur er.

21. gr.
Sjóðstjórn má ráða framkvæmdastjóra Málræktarsjóðs, sem verði gjaldkeri sjóðsins, hafi prókúruumboð og sjái um bókhald og fjárreiður sjóðsins.

22. gr.
Sjóðstjórn skal gæta almennra lagaákvæða um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, sbr. lög nr. 19/1988.

23. gr.
Sjóðstjórn semur árlega skýrslu um starfsemi Málræktarsjóðs og leggur hana fyrir aðalfund fulltrúaráðs. Jafnframt leggur hún endurskoðaða ársreikninga Málræktarsjóðs fyrir aðalfund fulltrúaráðs, sem afgreiðir þá. Reikningsárið er almanaksárið.

24. gr.
Komi til þess, af einhverjum ástæðum, að engin stjórn verði starfhæf í Málræktarsjóði, má menntamálaráðherra skipa sjóðnum nýja stjórn.

Skipulagsskrá

25. gr.
Skipulagsskrá þessa semur Íslensk málnefnd með samþykki menntamálaráðherra, og skal síðan leitað staðfestingar dómsmálaráðuneytis á henni. Á staðfestingardegi skal Málræktarsjóður taka til starfa.

26. gr.
Ekki má breyta skipulagsskrá þessari nema 3/4 hlutar fulltrúaráðs gjaldi breytingunni jákvæði sitt. Leita skal umsagnar menntamálaráðherra um breytinguna, og tekur breytingin ekki gildi fyrr en hún hefur hlotið staðfestingu dómsmálaráðuneytis.

27. gr.
Sjóður þessi verður ekki lagður niður nema stjórnin sé einhuga um það og að fenginni umsögn menntamálaráðherra. Verði engin önnur stofnun sett á fót með sama hlutverk eða svipað, skal menntamálaráðuneytið taka við öllum eigum hennar til varðveislu og ráðstöfunar.

Skipulagsskrá þessi kemur í stað skipulagsskrár sjóðsins sem staðfest var 19. maí 1995 og breytt var með samþykki fulltrúaráðsins 10. júní 2011. Jafnframt fellur fyrri skipulagsskrá úr gildi.